HEIMASÍÐA BAHÁ'ÍA
Í REYKJANESBÆ
              „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Bahá'u'lláh
 
 
 
 
 
 
BAHÁ'ÍAR Í REYKJANESBÆ

Bahá'í barnakennsla - Að tileinka sér dyggðir
Börnin er dýrmætasti fjársjóður samfélagsins því að þau bera í sér fyrirheit um framtíðina. Bahá’í viðhorfi til menntunar er best lýst með þessum orðum Bahá'u'lláh:

"Lítið á manninn sem námu fulla af ómetanlegum gimsteinum. Aðeins uppfræðsla getur fengið hana til að opinbera fjársjóði sína og gert mannkyni kleift að njóta góðs af þeim."

Börnin eru framtíð samfélagsins og því líta bahá‘íar svo á að andleg uppfræðsla þeirra sé mikilvægasta þjónustan sem hægt er að veita. Bahá'í samfélagið hefur boðið upp á barnakennslu þar sem höfuðáhersla er lögð á að börnin tileinki sér dyggðir og mannkosti. Kennslan fer fram í bahá‘í miðstöðvum eða heimilum og áhersla lögð á að sem flest börn geti notið góðs af kennslunni. Rit bahá‘í trúarinnar staðfesta að andleg fræðsla sé grunnþáttur í menntaferli sem leiðir til þess að mannsandinn eflist og umbreytist. Hvert barn er einstætt og Guð hefur gætt það sérstökum hæfileikum og eiginleikum. Tilgangur kennslunnar er að hjálpa börnunum að tileinka sér andlegar dyggðir og laða fram þá ómetanlegu gimsteina sem í þeim búa. Kennslan felur í sér ýmiskonar lærdómsþætti; tilvitnanir eru lagðar á minnið, sögur sagðar, farið í leiki og sungið. Listum og listhneigð barna er gert hátt undir höfði.

Börnunum er kennt að tileinka sér viðhorf ástar, skilnings og umburðarlyndis, hegðun þeirra fáguð með sköpun ánægjulegs en agaðs námsumhverfis þar sem virðing er borin fyrir meðfæddri göfgi barnsins. Kennararnir fá sérstaka þjálfun sem hjálpar þeim að auka skilning sinn á andlegum meginreglum varðandi menntun og kenna börnunum með ást og aga. Nokkrar af þeim dyggðum sem kenndar eru:

Örlæti • Réttlæti • Gæska • Eining • Hugrekki • Sannsögli • Að treysta á ást Guðs • Trúverðugleiki • Auðmýkt • Þjónusta við mannkynið

Barnakennsla fer fram annan hvern laugardag í bahá'í miðstöðinni, Túngötu 11 í Keflavík. Kennt er frá kl. 11-12, kennarar Sigurbjörg og Lilja. Næsta kennslustund 27. febrúar. Öll börn á aldrinum 6-12 ára eru boðin velkomin í kennsluna.

Unglingahópar - Að þekkja andlega þýðingu orða sinna og verka

Bahá´’í trúin sér í unglingum fórnfýsi og næma réttlætiskennd, löngun til að fræðast um alheiminn og þrá til að byggja betri heim. Unglingum er hjálpað að greina muninn á uppbyggilegum og eyðileggjandi öflum sem eru að verki í þjóðfélaginu og skilja áhrif þeirra. Bæta tjáningarhæfni þeirra og auka þann siðferðilega styrk sem þau þurfa á að halda til að geta orðið göfugir einstaklinga sem starfa til góðs fyrir alla.

 

Helgistundir
"Í þessum heimi er ekkert betra og ljúfara en bænin."

Reglulegar helgistundir eru nauðsynlegar fyrir andlegt líf samfélagsins. Þær þjóna því hlutverki að styrkja andlegan vöxt einstaklingsins og stuðla að raunverulegri ást og einingu í samfélaginu. Dagskráin er einföld og laus við helgisiði. Fólk kemur saman í bahá‘í miðstöð eða á heimili við tónlist og kertaljós sem skapar andrúmsloft kyrrðar og hugleiðslu. Helgistundirnar eru öllum opnar og allir hjartanlega velkomnir til að taka þátt eða fylgjast með.

Helgistundir eru haldnar alla fimmtudaga í bahá'í miðstöðinni Keflavík og hefjast kl. 20. Dýpkanir og kynningar sem haldnar verða í tengslum við helgistundirnar eða á öðrum tímum eru auglýstar hér.

Námshringir - Íhugun um líf andans
"Uppspretta alls lærdóms er þekking á Guði, vegsömuð sé dýrð hans."

Námshringirnir eru röð námskeiða sem eiga að hjálpa einstaklingnum að öðlast meðvitund um sjálfan sig sem andlega veru, styrkja löngun hans til að þjóna öllu mannkyni og uppgötva hvernig beita megi andlegum meginreglum í verki. Námshringir eru yfirleitt haldnir í litlum hópum þar sem einn einstaklingur þjónar sem leiðbeinandi til að greiða fyrir lærdómsferlinu. Fyrsta námskeiðið samanstendur af þremur einingum: að skilja bahá‘í ritningar, mikilvægi bæna og umfjöllun um lífið eftir dauðann. Tilgangurinn er að aðstoða einstaklinginn við að íhuga og skilja þessi mikilvægu málefni með beinni og lifandi snertingu við orð Guðs.

Hér eru fáeinar spurningar sem leitað er svara við í námshringjunum:

Að skilja bahá‘í ritningar
Hversvegna ættum við að lesa og íhuga helgirit bahá‘í trúarinnar?
Hvaða áhrif hafa þessi helgu rit á sál okkar og huga?

Bæn
Hvað er bæn?
Hversvegna ættum við að biðja?
Hverskonar viðhorf hjarta og huga er nauðsynlegt fyrir bænina?
Hvaða ávinningur er af bæninni?

Líf og dauði
Hver er tilgangur lífsins?
Hvert er eðli sálarinnar?
Hvernig er ástand sálarinnar eftir dauðann?
Hvað er rétt viðhorf gagnvart núverandi aðstæðum í lífi okkar?


 

 

dagskra
         
Bahá'í miðstöðin, Túngötu 11, 230 Reykjanesbær
gsm: 772 4878 - bahaitru@bahaitru.net