HEIMASÍÐA BAHÁ'ÍA
Í REYKJANESBÆ
              „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Bahá'u'lláh
 
 
 
 

 
 
BÁBINN

Árið 1844 kunngerði Bábinn, ungur kaupmaður frá borginni Shíraz í suðurhluta Persíu, að í nánd væri nýr boðberi Guðs sem öll trúarrit heims hefðu talað um og sem leggja myndi grunn að ríki friðar og farsældar í heiminum. Bábinn kvaðst kominn til að ryðja þessum endurlausnara braut.

Hann fæddist árið 1819 og var gefið nafnið Siyyid `Alí Muhammad Shírází. Þegar hann var 24 ára gamall lýsti hann því yfir að hann væri hinn fyrirheitni Mahdi sem shí’ah múslimar höfðu beðið og trúðu að myndi stofna ríki réttlætis á jörðu. Bahá'íar líta einnig á Bábinn sem endurkomu Jesú Krists.

Eftir yfirlýsingu sína tók hann sér titilinn Báb sem merkir hlið - þ.e. hlið að hinum fyrirheitna endurlausnara mannkynsins. Bábinn nam úr gildi trúarlög Kóransins og boðaði komu nýs opinberanda Guðs sem myndi sameina allar þjóðir heims í réttlæti og friði. Þessi opinberandi, Bahá’u’lláh, kom fram á sjónarsviðið árið 1853.

Tugir þúsunda manna og kvenna um allt landið urðu fylgjendur Bábsins en klerkarnir og ríkisstjórnin tóku saman höndum um að ofsækja og myrða þúsundir fylgjenda hans. Árið 1850 var Bábinn sjálfur tekinn af lífi í borginni Tabríz aðeins þrítugur að aldri. Af þeim sex árum sem hann hafði boðað trú sína hafði hann verið fangi eða í útlegð í fjögur ár. Á næstu árum voru um 20.000 fylgjendur hans einnig teknir af lífi fyrir trú sína.

Þótt Bábinn væri í fangelsi eða útlegð mestallan þann tíma sem hann boðaði komu hins fyrirheitna, skrifaði hann mikinn fjölda rita sem bæði eru dulfræðilegs eðlis og fjalla með skýrum hætti um “þann sem Guð mun birta” í fyllingu tímans, þ.e. Bahá’u’lláh sem þá var einn af lærisveinum Bábsins.

 

Grafhýsi Bábsins á Karmelfjalli í Ísrael

Eftir píslarvætti Bábsins var líkamsleifum hans varpað á brún virkisgrafar fyrir utan borg arveggina í Tabríz. Aðra nóttina var þeim bjargað á miðnætti af nokkrum fylgjendum Bábsins. Árum saman voru þær faldar á ýmsum leyndum stöðum í Persíu, en loks voru þær fluttar með mikilli leynd og áhættu til Landsins helga. Þær hvíla nú í grafhýsi í fögru umhverfi í hlíðum Karmelfjalls, aðeins nokkrar mílur frá þeim stað, þar sem Bahá’u’lláh eyddi síðustu æviárum sínum og þar sem jarð neskar leifar hans hvíla nú. Enginn af þeim þúsundum pílagríma frá öllum hlutum heimsins, sem koma til að votta helgu grafhýsi Bahá’u’lláh virðingu sína, vanrækir að biðja bænir sínar einnig við grafhýsi hins trygga ástvinar hans og fyrirrennara, Bábsins.


 

 

dagskra
         
Bahá'í miðstöðin, Túngötu 11, 230 Reykjanesbær
gsm: 772 4878 - bahaitru@bahaitru.net