HEIMASÍÐA BAHÁ'ÍA
Í REYKJANESBÆ
              „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Bahá'u'lláh
 
 
 
 


BAHÁ'U'LLÁH

Bahá’u’lláh kunngerði árið 1863 að hann væri nýr boðberi og opinberandi Guðs fyrir okkar tíma. Boðskapur hans, kenningar og helgirit eru grundvöllur bahá’í trúarinnar.

Bahá’u’lláh sagði að sér væri falið það hlutverk að koma til vegar einingu mannkyns og andlegri endurfæðingu þess. Slík endurfæðing myndi að lokum leiða til varanlegs heimsfriðar og ríkis Guðs á jörðu. Bahá’u’lláh á sér milljónir fylgjenda um allan heim sem fylgja lögum hans og kenningum um hvernig gera eigi sýn hans á dýrlega framtíð mannkyns að veruleika.

Boðberar Guðs
Bahá’u’lláh segir að Guð, ástríkur skapari himins og jarðar, hafi ávallt á öllum tímum sent mönnunum boðbera sína sem opinbera orð hans og kenningar. Leiðsögnin sem þeir veita gerir mönnunum kleift að þekkja Guð og tilbiðja hann. Þessi þekking og tilbeiðsla er hinn raunverulegi tilgangur jarðlífsins. Í þekktri sögu mannkyns hafa þessir opinberendur birst með 500 til 1000 ára millibili og stuðlað að andlegum og efnislegum framförum mannlegrar siðmenningar. Bahá’u’lláh er hinn síðasti af þessum guðlegu boðberum, en meðal þeirra eru Abraham, Móses, Jesús, Múhammeð, Krishna, Búddha, Saraþústa og Bábinn. Bahá’u’lláh segir að Guð muni halda áfram að senda mönnunum boðbera sína með nýja leiðsögn svo lengi sem mannkynið er á jörðinni.

Frá grafhýsi Bahá'u'lláh í Bahjí

Bahá’u’lláh fæddist árið 1817 í héraðinu Núr skammt undan ströndum Kaspíahafs í Persíu (nú Íran). Hann var af auðugum ættum; faðir hans var ráðherra við hirð keisarans í Teheran. Upprunalegt nafn hans var Mírzá Husayn Alí en síðar tók hann sér nafnið Bahá’u’lláh sem þýðir dýrð Guðs. Hann sneri baki við þeim völdum og áhrifum sem honum bauðst og naut mikillar hylli meðal alþýðu manna fyrir örlæti sitt, gæsku og umhyggju fyrir hinum fátæku sem voru fjölmargir í heimahéraði hans.

Bahá’u’lláh gekk strax til fylgis við Bábinn og sætti ásamt öðrum fylgjendum hans ofsóknum, harðræði og pyntingum af hendi klerkanna og persnesku stjórnarinnar. Eftir að Bábinn var líflátinn árið 1850 voru allar veraldlegar eigur Bahá’u’lláh gerðar upptækar og hann sætti fangelsi, pyntingum og útlegðardómum. Hann var fyrst sendur í útlegð til Bagdað og þar kunngerði hann að hann væri sá boðberi sem Bábinn hafði boðað. Hann var síðan sendur í útlegð til Konstantínópel, þaðan til Adríanópel og loks til fangelsisborgarinnar Akká í Palestínu. Hann kom þangað sem fangi árið 1868. Síðasti staður útlegðar hans árið 1868 var fangelsisborgin Akka í grennd við Haifa í Ísrael. Í Akka voru í haldi allir hættulegustu glæpamenn Tyrkjaveldis og borgin var annáluð fyrir slæmt loftslag, sóðaskap og sjúkdómahættu.

Útlegðardómar Bahá'u'lláh

 


Bahá'í trúin: 1/3 - 2/3 - 3/3 - 4/5 - 5/5

Útlegð og fangelsi
Frá Adríanópel og síðar frá Akka sendi Bahá’u’lláh bréf og pistla til allra helstu konunga, keisara og  heimsleiðtoga samtímans. Þessir pistlar eru með merkilegustu skjölum í trúarsögu mannkyns. Í þeim lýsir Bahá’u’lláh því yfir að hann sé nýr opinberandi Guðs og boðar einingu mannkyns og nýja siðmenningu í kjölfar þeirrar einingar.  Bahá’u’lláh hvatti leiðtoga heimsins á 19. öld til að jafna ágreining sinn, afvopnast og helga sig allsherjarfriði  á jörð. Hann sagði að þjóðum heims væri ætlaður ákveðinn tími til koma þessum málum í framkvæmd og snúa sér til Guðs. Ef þær gerðu það ekki myndu ógvænlegar hörmungar steðja að þeim úr öllum áttum uns þær að lokum neyddust til að taka höndum saman til að tryggja frið og öryggi allra jarðarbúa. Bahá’u’lláh sagði fyrir um báðar heimsstyrjaldirnar og þróun eyðingarvopna sem gætu valdið banvænni mengun og sköpuðu hættu fyrir allt líf á jörðinni.

Uppstigning
Bahá’u’lláh lést árið 1892 í Bahjí, skammt norður af Akka og þar er grafhýsi hans sem nú er miðpunktur pílagrímsferða bahá’ía hvaðanæfa að úr heiminum. Boðskapur hans hefur borist um allan heim og heimssamfélag bahá’ia lítur á sig sem eina heimsskipan sem hlítir lögum og meginreglum trúarinnar.

Orð og kenningar Bahá’u’lláh sem birt voru mönnum fyrir meira en 150 árum eru núna meðal mikilvægustu þátta í siðmenntuðu lífi um allan heim, m.a. þær sem lúta að jafnrétti kynjanna, skyldumenntun o.s.frv. Grundvallarstofnanir trúarinnar hafa verið settar á fót og sérstakur sáttmáli milli Bahá’u’lláh og fylgjenda hans tryggir einingu og flekkleysi bahá’í stjórnkerfisins kerfisins auk þess sem sáttmálinn varðveitir heimssamfélagið frá þeirri óeiningu og þeim sundrungaröflum sem sett hafa mark sitt á fyrri trúarbrögð.

Rit Bahá‘u‘lláh
Helgirit fyrri tíma voru rituð af ýmsum aðilum eftir daga opinberenda þeirra. Ekki er vitað til þess að höfundar hinna stóru trúarbragða hafi skrifað neitt sjálfir. Bahá‘u‘´lláh ritaði hinsvegar fjölda pistla, bréf og bóka með eigin hendi og á þau er litið sem guðlega opinberun - orð Guðs. Í Adríanópel og síðar í Akka í Palestínu skrifaði Bahá‘u‘lláh bréf til allra helstu leiðtoga heimsins, Napóleons III. Frakkakonungs, Viktoríu Bretadrottningar, Vilhjálms I. Þýskalandskeisara, Alexanders II. Rússlandskeisara, Frans Jósefs keisara Austurríkis, Píus páfa IX., Abdu‘l-Aziz Tyrkjasoldáns og Nasiri‘d-Din Shah keisara Persíu.

 Bahá‘u‘lláh hvatti leiðtogana að nota vald sitt til að koma á réttlátri stjórn og stuðla að alþjóðlegum friði. Hann kunngerði þar hlutverk sitt sem boðberi nýrrar trúar, einingu mannkynsins og allsherjarsiðmenningu. Bahá‘u‘lláh hvatti leiðtoga 19. aldar til að leysa deilur sínar og afvopnast. Bréf Bahá‘u‘lláh til leiðtoga heimsins eru til í enskum þýðingum og veigamiklir hlutar þeirra einnig í íslenskum þýðingum. Rit Bahá‘u‘lláh eru mikil að vöxtum og leggja grundvöll að nýrri heimssiðmenningu sem byggist á friði, réttlæti og ást.

 

 

dagskra
         
Bahá'í miðstöðin, Túngötu 11, 230 Reykjanesbær
gsm: 772 4878 - bahaitru@bahaitru.net