HEIMASÍÐA BAHÁ'ÍA
Í REYKJANESBÆ
              „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Bahá'u'lláh
 
 
 
 

 
 
BAHÁ'ÍAR Á ÍSLANDI

Á Íslandi eru bahá’íar um rétt rúmlega 350 talsins af að minnta kosti 14 þjóðernum. Bahá’í samfélagið nýtur fullrar viðurkenningar sem trúfélag utan Þjóðkirkjunnar. Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi var stofnað árið 1972 og hefur umsjón með málefnum trúarinnar á landsvísu. Bahá’u’lláh var, að því best er vitað, fyrst getið á prenti hér á landi árið 1908, er Þórhallur Bjarnarson, síðar biskup, fór um hann svofelldum orðum:

„Fyrir fjörutíu árum reis upp dýrlegur kennimaður og guðsvottur í Persalandi, og hét hann Baha Ullah. Eins og við mátti búast, dó hann píslarvættisdauða - andaðist í tyrkneskri prísund 1892. Margir fylgjendur hans hafa látið lífið fyrir trúarskoðanir sínar, en þær breiðast því betur út. Kenningar hans eru að mörgu leyti svipaðar kenningum kristindómsins eins og mannúðlegast og göfugast er með þær farið.“ (‘Persneskur Messías’, Nýja Kirkjublaðið, 3. tbl., 3. árg.)

Fyrsti bahá’íinn
Árið 1924 kom til landsins bandarísk kona, Amelia Collins að nafni. Í stuttri heimsókn sinni kynntist hún Hólmfríði Árnadóttur, sem þýddi og undirbjó útgáfu fyrstu bahá’í bókarinnar á íslensku: Bahá’u’lláh og nýi tíminn. Hólmfríður var um langt skeið safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar. Hún varð síðar fyrsti bahá’íinn á Íslandi. Ellefu árum síðar, eða 1935, kom þekktur bahá’í ferðakennari til landsins, Martha Root að nafni. Hófust þá fyrstu opinberu kynningar á bahá’í trúnni hérlendis með fyrirlestri í Háskólanum, viðtali í útvarpi og greinum í blöðum.

Þjóðarráð stofnað

Fyrsta þjóðrráð bahá'ía á Íslandi 1972

Í tíu ára alþjóðlegri kennsluáætlun, sem Vörður bahá’í trúarinnar, Shoghi Effendi, hleypti af stokkunum, fékk bahá’í samfélagið í Kanada það verkefni að sjá um þróun bahá’í trúarinnar á Íslandi. Árið 1958 kom fyrsti kanadíski brautryðjandinn til landsins og settist hér að. Fleiri fylgdu á eftir. Þetta hafði það í för með sér að hægt var að stofna fyrsta andlega svæðisráðið hér á landi með aðsetri í Reykjavík árið 1965. Upp úr því varð þróunin örari. Bahá’í hjónavígsla fengu löggildingu og fyrstu bahá’íarnir giftu sig hérlendis árið 1967. Eins og fyrr segir fékk bahá’í trúin formlega viðurkenningu stjórnvalda árið 1975. Síðar fékkst viðurkenning Menntamálaráðuneytisins á bahá’í helgidögum fyrir skólanema. Árið 1971 voru stofnuð þrjú andleg ráð til viðbótar við ráðið í Reykjavík: í Kópavogi, Hafnarfirði og Keflavík. Í framhaldi af því var hægt að kjósa í fyrsta sinn til Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi árið 1972 og hefur það verið kosið á árlegu landsþingi upp frá því. Á Íslandi eru nú sex andleg svæðisráð starfandi undir umsjá og leiðsögn Andlega þjóðarráðsins. Bahá’íar erubúsettir víða um land.

Þjóðarmiðstöð og skrifstofa bahá'ía á Íslandi er að Öldugötu 2, 101 Reykjavík. Síminn er 567 0344. Tölvupóstur: nsa@bahai.is.

 


 

Alþjóðlegt samstarf
Í september 1971 var haldin alþjóðleg bahá’í ráðstefna í Reykjavík, sem sótt var af rúmlega 800 manns frá 36 löndum.

Árið 1973 tók Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Íslandi tók í fyrsta sinn þátt í kosningu til Allsherjarhúss réttvísinnar, æðstu stjórnstofnunar bahá’í heimsins. Kosið er til þessarar stofnunar á fimm ára fresti af öllum þjóðarráðum heims. Ári síðar hófst fimm ára áætlun um útbreiðslu bahá’í trúarinnar sem Allsherjarhús réttvísinnar hleypti af stokkunum. Í henni fékk íslenska bahá’í samfélagið meðal annars það verkefni og markmið að sjá um þróun trúarinnar í Færeyjum og hafði ráðið þetta hlutverk til ársins 2006. Á þessi, tíma fóru fjölmargir íslenskir brautryðjendur til Færeyja til að styrkja og efla bahá’í samfélagið þar. Nú hefur Andlegt þjóðarráð bahá’ía á Bretlandseyjum umsjón með færeyska samfélaginu.

Útgáfa
Bahá’í lesefni hefur verið þýtt yfir á íslensku ásamt ýmsum kynningarritum. Fyrsta bókin, sem íslenskur höfundur hefur ritað um bahá’í trúna er Bahá’u’lláh - líf Hans og opinberun eftir Eðvarð T. Jónsson og kom hún út árið 1982. Og sólin rís var gefin út árið 1973 en það er þýðing á verki eftir William Sears sem fjallar um árdaga bahá’í trúarinnar. Meðal rita Bahá’u’lláh sem þýdd hafa verið yfir á íslensku má nefna Kitáb-i-Íqán (Bók fullvissunnar), Hulin orð og samantektin Úrval úr ritum Bahá’u’lláh. Einnig hafa verið gefnar út bænabækur og samantektir af ýmsu tagi auk efnis fyrir börn.

Eignir
Árið 1971 var ráðist í að kaupa land undir bahá’í tilbeiðsluhús í Kópavogi en það var selt árið 2001 og nýtt land keypt á Kjalarnesi sem hlaut nafnið Kistufell. Þar var áður bærinn Norður-Gröf. Þar er í dag námskeiðssetur með gistiaðstöðu og samkomusal. Bahá’í þjóðarmiðstöð er staðsett að Öldugötu 2 í Reykjavík Þar eru meðal annars skrifstofa Andlegs þjóðarráðs bahá’ía á Íslandi, bóksala og aðsetur Andlegs ráðs bahá’ía í Reykjavík. Einnig er bahá’í svæðismiðstöð í Keflavík að Túngötu 11. Bahá’í samfélagið á auk þess jörðina Skóga í Þorskafirði, sem það erfði eftir Jochum Eggertsson skáld og rithöfund. Þar er nú rekið skógræktarverkefni í samstarfi við Skjólskóga á Vestfjörðum.

Frá Skógum í Þorskafirði - Hnausaskógur

Fjármál
Fjár til bahá’í starfsemi er aflað með frjálsum og leynilegum framlögum. Aðeins skráðir bahá’íar mega gefa til bahá’í starfsemi og ekki er undir neinum kringumstæðum tekið við fé eða gjöfum til starfseminnar frá einstaklingum eða félögum utan baha’í trúarinnar. Strangt bann er lagt við að falast eftir fjármunum en minnt er á að það sé ein af andlegum skyldum bahá’ía að styrkja starfsemi trúarinnar með fjárframlögum eftir því sem geta hvers og eins segir til um.


 

 

dagskra
         
Bahá'í miðstöðin, Túngötu 11, 230 Reykjanesbær
gsm: 772 4878 - bahaitru@bahaitru.net