Í annálum sögunnar standa ákveðnir einstaklingar upp úr sem leiðarljós hugrekkis, upplýsingar og byltingaranda. Þeirra á meðal er Tahirih, persnesk kona gædd ríkum persónutöfrum, trú og djúpri þrá eftir réttlæti. Á tímum þegar menntun kvenna var fjarlægur draumur, ögraði hún samfélagslegum viðmiðum og aflaði sér víðtækrar menntunar á mörgum sviðum. Leitin að andlegum sannleika varð til þess að hún játaðist kenningum Bábsins. Ósveigjanleg barátta Tahirih fyrir frelsi, jafnrétti og valdeflingu kvenna er ein dýrmætasta arfleifð hennar en leiddi þó að lokum til þess að persneska klerkaveldið tók hana af lífi í ágúst 1852.
Þessi bók er ómetanlegur félagi hvers og eins sem leitar að dýpri skilningi á andlegri vegferð sinni. Hún býður lesandanum að skoða sína eigin sál og tileinka sér dýrmætar lífsreglur um ást, einingu og þjónustu. Með visku og ástúð vísar ‘Abdu’l-Bahá veginn í leit að sannleika, samhygð og vináttu. Sönn hamingja felst í að þjóna öðrum af einlægni og vinna að því að bæta heiminn. Orð ‘Abdu’l-Bahá ögra hefðbundinni hugsun og hvetja til leitar að andlegri umbreytingu og upplýsingu.
Kitáb-i-Aqdas er móðurbók baháʼí opinberunarinnar og stofnskrá framtíðarsiðmenningar mannkynsins. Hér setur Baháʼuʼlláh fram andlegar undirstöðureglur, lög og kenningar sem mynda grunnstoðir bahá'í samfélagsins og framtíðarsýn þess á réttlátt heimsskipulag. Eining mannkyns og trúarbragða þess er burðarás heimsskipulags Bahá’u’lláh. Andleg löggjöf bahá’í trúarinnar skyldar fylgjendur hennar til að rækta með sér dyggðir og þjóna hæstu hagsmunum mannkynsins. Bahá’u’lláh segir: „Þær dyggðir sem hæfa tign mannsins eru umburðarlyndi, miskunn, samúð og ástríki gagnvart öllum þjóðum og kynkvíslum jarðar.“
Þessi bók írska kennimannsins George Townshend er stórmerk rannsókn á andlegum tengslum tveggja höfuðpersóna í sögu mannkyns - Jesú Krists og Bahá’u’lláh, stofnanda bahá’í trúarinnar. Djúp innsýn Townshends skapar brú milli tveggja trúarhefða og varpar ljósi á eininguna í boðskap þeirra. Townshend byggir á ríkri þekkingu sinni á kristni, íslam og bahá'í trú og fléttar saman frásögn sem undirstrikar tímalaust eðli guðlegrar opinberunar. Bókin einkennist af lotningu fyrir hinum miklu trúarbragðahöfundum og fylgjendur þeirra eru hvattir til að íhuga andlegar hliðstæður og sameiginleg gildi í boðskap þeirra.
Í þessari bók eru 39 sögur úr bernsku ʻAbduʼl-Bahá. Barn að aldri fylgdi hann föður sínum, Bahá'u'lláh, í útlegð og fangavist. Hann var fangi í 45 ár en var leystur úr haldi eftir byltingu Ungtyrkja árið 1908. Árið 1911-1912 fór hann í tveggja ára heimsókn til Vesturlanda frá Landinu helga. Ferðir hans juku hróður bahá’í trúarinnar til muna og fjöldi fólks gekk til liðs við hana.
„Vér höfum gert þig [‘Abdu’l-Bahá] að athvarfi fyrir allt mannkynið, skildi fyrir alla sem eru á himni og jörðu, rammgerðu vígi fyrir hvern þann sem trúað hefur á Guð, hinn óviðjafnanlega, hinn alvitra.“ - Bahá'u'lláh
Ritið Guðlegt réttlæti í nánd hefur sérstöðu meðal þeirra bréfa og pistla sem Shoghi Effendi ritaði á árunum fyrir síðari heimsstyrjöldina. Það er að formi til pistill sem Verndari trúarinnar skrifaði til bahá’ía í Norður-Ameríku á upphafsárum Sjö ára áætlunarinnar fyrir Norður Ameríku. Sú áætlun hófst árið 1937 og var fyrsta áætlunin á mótunaröld bahá’í trúarinnar og jafnframt fyrsta skrefið sem samfélagið tók til að framkvæma fyrirmælin sem ‘Abdu’l-Bahá gaf bahá’í heimssamfélaginu í Töflum hinnar guðlegu áætlunar um útbreiðslu trúarinnar um allan heim.
Í helgiritum allra trúarbragða heims hafa ákveðin fyrirheit verið gefin um að sá dagur muni koma, þegar ríki Guðs — ríki friðar, farsældar og réttlætis — verður stofnað á jörðu. Þessi dagur er nú runninn upp. Guðsríkið er þó ekki eitthvað sem birtast mun með yfirskilvitlegum hætti á einni nóttu; það útheimtir erfiði og fórnir af hálfu allra sem leita sannleikans þegar leiðin hefur loks verið mörkuð. Á okkar tímum hefur Bahá’u’lláh sýnt þessa leið og rutt úr vegi öllum tálmum og hindrunum.
Perlan ómetanlega er ævisaga Shoghi Effendi, Verndara bahá’í trúarinnar. Bókin er skrifuð af eiginkonu hans, Rúhiyyih Khánum, og veitir náið og persónulegt sjónarhorn á persónu Shoghi Effendi, sýn hans, líf og afrek. Sagt er frá barnæsku hans, uppvexti, forystuhlutverki og uppbyggingarstarfi á mikilvægu tímabili þroska og framfara. Bókin fangar ekki aðeins sögulega atburði heldur varpar einnig ljósi á þá einstæðu andlegu eiginleika sem skilgreindu óskeikula leiðsögn Shoghi Effendi á þeim 36 árum sem hann veitti bahá’í heimssamfélaginu forystu, túlkaði kenningar trúarinnar og byggði upp stjórnskipulag hennar.
Í þessari bók er að finna safn útdrátta úr bókum og töflum sem Bábinn opinberaði, þar á meðal Qayyúmu’l-Asmá’ (skýringar á súru Jósefs í Kóraninum), persneska Bayáninn, Dalá’il-i-Sab‘ih (Sjö sannanir), Kitáb-i-Asmá’ (Bók nafnanna), og ýmis önnur rit. Efni bókarinnar var tekið saman af Rannsóknardeild Allsherjarhúss réttvísinnar og fyrst gefin út í viðurkenndri enskri þýðingu árið 1976. Í íslensku þýðingunni eru ítarlegar skýringar á hugtökum auk skýringa á tilvitnunum í Kóraninn.
Í Baháʼí bænabókinni er að finna mikinn fjölda bæna fyrir öll helstu tilefni daglega lífsins opinberaðar af þremur höfuðpersónum baháʼí trúarinnar, Baháʼuʼlláh, Bábinum og ‘Abdu’l-Bahá. Bænabókin er dyggur förunautur á vegi andlegs lífs og geymir leiðsögn um hvernig dýpka má og þroska trúarlíf sitt og andleg viðhorf.
Sýn Bahá’u’lláh á mannkyninu sem einni þjóð og jörðinni sem einu heimalandi var vísað á bug af þeim leiðtogum heimsins, sem hún var boðuð fyrir meira en 170 árum. Þessi hugsýn er nú brennipunktur mannlegra væntinga. Jafn óumflýjanlegt er hrun siðferðilegs og samfélagslegs skipulags, sem skýrt og afdráttarlaust var sagt fyrir í þessum sama boðskap. Þetta er tilefni þessarar kynningar á lífi og verkum Bahá’u’lláh. Það er unnið að beiðni Allsherjarhúss réttvísinnar, sem gegnir forystuhlutverki í þeirri starfsemi um allan heim, sem atburðir fyrir einni öld hrundu af stað, og lýsir þeim tilfinningum trausts og fullvissu, sem bahá’íar um allan heiminn líta framtíð plánetunnar og mannkynsins.
Samantektin Lind lifandi vatna hefur að geyma úrval úr ritum Bábsins, sem ruddi bahá’í trúnni brautina, Bahá’u’lláh, höfundar hennar, ‘Abdu’l-Bahá, óskeikullar fyrirmyndar bahá’ía og Shoghi Effendi, Verndara trúarinnar. Samantektin hefur bæði gildi fyrir einstaklinginn til aukins andríkis og íhugunar auk þeirrar leiðsagnar sem þar er að finna fyrir samfélag nútíðar og framtíðar.
Í nýársbréfi Allsherjarhúss Réttvísinnar árið 135 e.B. (1979) segir: „Því hvernig eiga átrúendurnir að dýpka skilning sinn á kenningunum og vera færir um að miðla þeim rétt til annarra án aðgangs að lifandi vatni hins heilaga orðs?“
Hamingjan er hótel ofar skýjum
þar heilsa sól og stjörnur degi nýjum.
Helgur blær um himins gáttir líður,
í heimsins klið á jörðu lífið bíður.
Og stjarna í suðri starir furðu lostin
á stúlku og dreng sem tóku þennan kostinn
að bindast traustum, ferskum tryggðaböndum
og taka því sem ástin ber
að höndum.
Leysið nú festar, haldið á svalbláan sæinn,
siglið fleyinu beint inn í sólina og daginn.
Örlögin ráða hvar ykkur svo ber að landi.
Almættið fleyinu stýrir og forðar því grandi.
„Sólin rís fjallar um upphafstímabil bahá’í trúarinnar og lýkur með frásögn af píslardauða fyrirrennara hennar, Bábsins. Smáatriði dramatískrar og örlagaríkrar sögu þessa tímabils eru ekki rakin né heldur allar þær eftirminnilegu frásagnir sem varðveist hafa heldur leitast bókin fyrst og fremst við að vekja athygli mannkynsins á æviferli Bábsins. Þá sögu sagði Nabíl með sígildum orðum í bókinni The Dawn-Breakers og Shoghi Effendi Rabbani, Verndari bahá’í trúarinnar, í God Passes By. Bókin er aðeins einföld endursögn einstæðra viðburða, sem mennirnir hafa of lengi virt að vettugi í leit sinni að friði og sálarró.“
Úr bókarformála
Á árunum í kringum 1840 biðu menn um allan heim í ofvæni eftir því að Kristur kæmi aftur á skýjum himins „með mætti og mikilli dýrð“, eins og hann segir sjálfur í 24. kafla Matteusarguðspjalls. Átti endurkoman sér stað eða var þetta allt bara draumur? Í þessari bók er gátan loksins ráðin og lesandinn getur fylgst með spennandi og sannfærandi leit höfundarins að lausn hennar. Þetta er saga um leyndardóm sem er öllum mikilvægur og höfundurinn, William Sears, setur fram sannanir sínar með þeim hætti að hver og einn getur unnið úr málinu sjálfur og leyst gátuna miklu um endurkomu Krists.
Töflur Baháʼuʼlláh, opinberaðar eftir Kitáb-i-Aqdas, eru meðal mikilvægustu rita bahá’í trúarinnar. Þar er að finna bréf til einstakra bahá’ía og valdhafa þar sem fjallað er um andlegar kenningar og ýmsa þætti trúarbragðanna, þar á meðal framfarir mannlegrar siðmenningar og mikilvægi andlegra meginreglna í persónulegu og samfélagslegu samhengi, andlegan vöxt einstaklingsins og einingu mannkyns.
Þessi nýja samantekt um hjónabandið var unnin af Rannsóknardeild Allsherjarhúss réttvísinnar. Í henni eru tuttugu og þrjár nýþýddar tilvitnanir úr baháʼí ritunum, þrjár frá Baháʼuʼlláh og tuttugu frá ‘Abdu’l-Bahá, þar á meðal nokkrar bænir. Það er von Allsherjarhússins að hún verði til að dýpka skilning baháʼía á stofnun hjónabandsins og veki til umræðna um það hlutverk sem hjúskaparsáttmálinn gegnir í almennri reglu, velferð og einingu í öllum mannlegum samskiptum.
Í bréfi um fyrsta árhundrað mótunaraldar trúarinnar, sem sent var til baháʼía um allan heim 28. nóvember 2023, segir Allsherjarhús réttvísinnar meðal annars:
„Í bókinni Guðlegt réttlæti í nánd útskýrði Shoghi Effendi fyrir baháʼíum í Ameríku að í ljósi takmarkaðrar stærðar samfélags þeirra og þeirra knöppu áhrifa sem það hafði á þeim tíma, yrðu þeir að einbeita sér að sínum eigin vexti og þroska á sama tíma og þeir lærðu að beita kenningunum. Hann hét því hins vegar að sá tími kæmi að þeir yrðu kallaðir til að virkja samborgara sína í starfi að græðingu og bata þjóðar sinnar. Sá tími er nú kominn."
Þessi bók er eitt af lykilritum bahá’í trúarinnar. Í henni útskýrir ‘Abdu’l-Bahá viðhorf trúarinnar til ýmissa guðfræðilegra og heimspekilegra spurninga, þar á meðal óþekkjanlegt eðli Guðs, hlutverk boðbera Hans, andlegar og líkamlegar hliðar mannsins, tilgang lífsins og þroska sálarinnar. Hann fjallar um samræmi vísinda og trúarbragða og svarar spurningum um eðli sálarinnar og þroska hennar eftir viðskilnaðinn við líkamann. Fjallað er um félagsleg málefni eins og jafnrétti karla og kvenna, mikilvægi menntunar og brýna nauðsyn friðar og réttlætis. Í bókinni er einnig að finna ítarlega umfjöllum um kristin málefni, eins og upprisu Krists, þrenninguna og mikilvægi Biblíuspádóma.