HEIMASÍÐA BAHÁ'ÍA
Í REYKJANESBÆ
              „Jörðin er aðeins eitt land og mannkynið íbúar þess.“ Bahá'u'lláh
 
 
 
 

 
 
LÍF OG DAUÐI

Samkvæmt bahá’í trúnni verður mannssálin til við getnað. Fóstur í móðurkviði þróar með sér ýmis líffæri og líkamlega eiginleika sem þurfa að styrkjast til þess að þeir komi að gagni utan móðurlífsins. Sál mannsins þróar með sér hæfni og eiginleika sem koma henni að gagni í þessu lífi og því næsta. Siðferðilegir, vitsmunalegir og andlegir eiginleikar sálarinnar verða að þróast frá barnæsku með hjálp uppalenda, einstaklinganna sjálfra og leiðsagnar opinberanda Guðs. Þessir eiginleikar koma að gagni í þessum heimi og ekki síst í þeirri veröld sem tekur við eftir líkamsdauðann. Í ljósi þessa er mannsaldur aðeins örstutt tímabil í lífi sem aldrei tekur enda.

Ó, SONUR ÞJÓNUSTUMEYJAR MINNAR!
Ef þú litir augum ódauðleg yfirráð, myndir þú þrá að skiljast frá þessari hverfulu veröld. En að dylja þér eitt og birta þér annað er leyndardómur, sem enginn fær skilið nema hinir hjartahreinu.   (Bahá’u’lláh, Hulin orð, nr. 41, úr persnesku)

Tengsl líkama og sálar eru afar sérstök en þau endast aðeins meðan við erum í  þessum heimi. Þegar jarðvistinni lýkur snýr hvort sum sig til uppruna síns. Líkaminn hverfur aftur til efnisheimsins en sálin til andlegra veralda þar sem hún þroskast að eilífu í skjóli miskunnar Guðs.

Bahá'u'lláh segir:
" Víkjum nú að spurningu þinni um sál mannsins og líf hennar eftir dauðann. Vita skalt þú í sannleika, að sálin heldur áfram að þróast eftir viðskilnaðinn við líkamanum uns hún kemst í návist Guðs í þesskonar ástandi og ásigkomulagi að hvorki framrás alda og árþúsunda né breytingar og umskipti þessa heims geta náð til hennar. Hún varir jafn lengi og ríki Guðs, yfirráð hans, vald og herradómur. " (Úrval úr ritum Bahá'u'lláh, LXXXI.)

 

Um sálina - úr ritum Bahá'í trúarinnar

"Vita skalt þú, að sál mannsins er óháð og ofar öllum líkamlegum og hugrænum sjúkleika. Sýni sjúkur maður hnignunarmerki stafa þau af hindrunum sem koma á milli sálar hans og líkama, því sálin er sjálf óháð öllum líkamlegum meinsemdum. Íhuga ljósið sem skín í lampanum. Þótt ytri fyrirstaða geti skyggt á birtu þess heldur ljósið áfram að skína og birta þess dofnar ekki. Á sama hátt hindrar sérhver sjúkleiki sem hrjáir líkama mannsins sálina frá því að birta áskapaðan mátt sinn og vald. Þegar hún yfirgefur líkamann verða yfirráð hennar og áhrifavald þess eðlis að engu afli á jörðu verður við það jafnað. Sérhver hrein, fáguð og helguð sál öðlast feiknlegt vald og fagnar með mikilli gleði." (Úrval úr ritum Bahá'u'lláh, LXXX.)

"Vita skalt þú í sannleika að sálin er tákn Guðs, himnesk gersemi; flestum lærdómsmannanna hefur ekki tekist að skilja veruleika hennar og enginn hugur, hversu skarpskyggn sem hann er, getur nokkru sinni vænst þess að afhjúpa leyndardóm hennar. Hún er fyrst allrar skepnu til að kunngera ágæti skapara síns, fyrst til að þekkja dýrð hans, fylgja staðfastlega sannleika hans og krjúpa í lofgjörð frammi fyrir honum. Ef hún er trú Guði mun hún endurspegla ljós hans og snúa að lokum til hans aftur. Ef hún á hinn bóginn bregst trúnaði sínum við skapara sinn verður hún fórnarlamb sjálfs og ástríðu og sekkur að endingu í djúp þeirra." (Úrval úr ritum Bahá'u'lláh, LXXXII.)

 

 

dagskra
         
Bahá'í miðstöðin, Túngötu 11, 230 Reykjanesbær
gsm: 772 4878 -bahaitru@bahaitru.net